*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Innlent 31. janúar 2020 15:55

Stjórnarráðið ber saman lífskjör

„Að undanförnu hefur nokkuð borið á umræðu um verðlag á Íslandi,“ segir á vef stjórnvalda vegna umræðu um dýrtíð.

Ritstjórn
Vefsíða Stjórnarráðsins bregst við umræðu um óafsakanlega dýrtíð á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Á vef Stjórnarráðsins eru meðallaun, verðlag, kaupmáttur og fátækt hér á landi borin saman við önnur OECD ríki vegna umræðu sem „nokkuð hefur borið á um verðlag á íslandi“ að því er þar segir.

Er þar væntanlega verið að vísa í umræður sem sprottið hafa upp síðan rithöfundurinn og útvarpsmaðurinn Halldór Armand sagði í pistli á RÚV, Ísland vera óafsakanlega dýrt og hann þekkti fullt af ungu fólki sem hefði þess vegna flúið land.

Á vef Stjórnarráðsins er hins vegar bent á að verðlagið hér, líkt og í öðrum ríkjum, ráðist ekki síst af tekjum og tekjuskiptingu og landsframleiðsla á mann óvíða sögð hærri en hér á landi. Undanfarin ár hafi laun á Íslandi hækkað hratt og það ásamt styrkingu gengisins hafi drifið áfram, hækkun verðlagsins.

Þannig er bent á að kaupmáttur meðallauna hafi verið hæstur á Íslandi árið 2018, að hlutfallslegt verðlag hér á landi sé sambærilegt hinum EFTA ríkjunum Sviss og Noregi, en það sagt líklega lægra nú hér en í löndunum tveimur.

Loks er kaupmáttur á Íslandi ekki einungis hár, heldur tekjurnar óvíða jafnari, eða einungis jafnari í Slóvakíu, samkvæmt tölum Eurostat. Loks fari hvergi hærra hlutfall verðmætasköpunar til launafólks, eða 64% árið 2018 og hafi það líklega hækkað síðan. Jafnframt sé hlutfall launa af verðmætasköpun nú hátt í sögulegu samhengi.

Skoða má nánar gröfin sem sýna þetta á vef Stjórnarráðsins.