Þingmenn hafa lagt umræður um frumvarp til stjórnarskipunarlaga til hliðar í bili og er nú hafin umræða um greiðsluaðlögunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Enn liggur þó ekki fyrir hvenær þingi lýkur fyrir kosningar.

Samkomulag hefur náðst um það milli stjórnmálaflokkanna að taka tvö mál til umræðu í dag, greiðsluaðlögunarfrumvarpið og frumvarp ríkisstjórnarinnar um hærri vaxtabætur.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins á svo að sjá til með framhaldið. Reyna á að koma fyrrgreindu frumvörpunum tveimur til þriðju og síðustu umræðu.

Ekki hefur þó náðst samstaða um önnur mál né heldur hve langt fram að kosningum þingið mun starfa. Þó er ljóst að hlé verður gert á þingstörfum yfir páskahelgina.

Kosningar verða 25. apríl.