Hafsteinn Þór Hauksson.
Hafsteinn Þór Hauksson.
© Edwin Roald Rögnvaldsson (VB Mynd/Edwin)

Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lögfræðideild Háskóla Íslands, segir að nokkur atriði í tillögum stjórnlagaráðs veki áhyggjur, en hann hélt erindi um tillögurnar fyrir skömmu.

„Nokkrir lögfræðilegir annmarkar eru á tillögunum,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. „Sem dæmi um slíkt er að mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er umturnað í tillögunum. Orðalagi flestra greina kaflans er breytt, en í greinargerð með tillögunum segir hins vegar oft að markmiðið sé ekki að breyta efni greinanna. Aðeins sé um orðalagsbreytingar að ræða. Dómstólar hafa hins vegar ekki litið svo á að ákvæðum stjórnarskrárinnar sé breytt til gamans. Þegar orðalagi tjáningarfrelsisákvæðisins er breytt, svo dæmi sé tekið, er ekki hægt að treysta því að dómstólar breyti ekki túlkun sinni á merkingu ákvæðisins. Ef markmiðið var ekki að breyta mannréttindakaflanum efnislega hefði stjórnlagaráð ekki átt að leggja til orðalagsbreytingar á greinum hans.“

Minna aðhald

Þá segir hann að í tillögum stjórnlagaráðs kunni að felast breyting á eðli stjórnarskrárinnar á þann hátt að hún veiti hinu opinbera minna aðhald. „Í stjórnarskránni eins og hún er í dag eru einstaklingum tryggð ákveðin réttindi. Þar er orðalag eins og „allir eiga rétt á að stofna trúfélög“ og „rétt eiga menn á að stofna félög“. Í tillögunum er þetta hins vegar gjarnan orðað þannig að „öllum skuli tryggður réttur“ til hins og þessa. Í stað þess að tryggja réttindin einfaldlega í stjórnarskránni sjálfri er málinu vísað til pólitískra valdhafa hverju sinni og þeim, þ.e. löggjafanum, falið að tryggja þau.“

Nánar er fjallað um málið í  í nýjasta Viðskiptablaðinu, sem kom út fyrir jól. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð í slánni hér að ofan.