Páll Þórhallsson, formaður stjórnarskrárnefndar, segir nefndina nú búa sig undir að skila skýrslu í formi frumvarps á næstu vikum. Þetta segir hann í samtali við Morgunblaðið .

Nefndin var skipuð af forsætisráðherra í nóvember árið 2013.  „Við höfum fundað nokkuð reglulega í sumar og áætlum að skila skýrslunni í formi frumvarps á næstu vikum, sem verður svo afgreitt fyrir jól ef pólitískur vilji er fyrir hendi,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir margt snúið í málinu þar sem finna þurfi ýmsar málamiðlanir. Allir séu þó meðvitaðir um að ef nýta eigi bráðabirgðaákvæði um breytingar á stjórnarskránni og halda atkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum fari tíminn brátt að renna frá nefndinni.

„Þetta þarf að afgreiðast á Alþingi fyrir jól og þingið þarf að minnsta kosti nokkrar vikur til að ræða frumvarpið. Þess vegna höfum við lagt allt kapp á að skila þessu af okkur í september svo að hægt verði að leggja fram frumvarpið um og upp úr næstu mánaðamótum,“ segir Páll.