"Við værum ekki að þessu nema við teldum að þetta væri einn liður í því að auka hlut kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja," segir Margrét Kristmannsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri, um yfirlýsingu rúmlega hundrað kvenna, sem segjast reiðubúnar að setjast í stjórnir fyrirtækja landsins.

Yfirlýsingin er birt í fjölmiðlum í dag en einnig verður hún send stjórnendum 150 stærstu fyrirtækja landsins. Yfirskrift yfirlýsingarinnar er: "Við segjum já." Í henni er bent á að í dag skipi konur innan við 10% stjórnarsæta í stærstu fyrirtækjum landsins.

Konurnar telja að hvorki fyrirtækin né samfélagið hafi efni á því að hafa stöðuna óbreytta. Margrét segir að þeir karlmenn sem eru við völd í íslensku viðskiptalífi leiti síður til kvenna þegar skipa eigi í stjórnir fyrirtækjanna. Þeir leiti fremur til karla, segir hún, þ.e.a.s. til síns nánasta hóps og reynsluheims.

Þá segir hún að viðkvæðið sé gjarna: "Konur segja alltaf nei", þegar karlarnir séu spurðir hvers vegna ekki fleiri konur séu við stjórnvölinn en raun beri vitni. "Þetta hefur komið okkur á óvart," segir hún, "því við höfum ekki hitt konur í okkar hópi sem segjast hafa sagt nei."

Auglýsingin er birt í ljósi þess að nú er tími aðalfunda og stjórnarkjörs, að sögn Margrétar.