Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla ekki að styðja neinar tillögur sérfræðihóps ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna sem fela í sér áhættu fyrir ríkissjóðs. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að svo mikil leynd hvíli yfir málinu að óbreyttir þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki fengið neinar upplýsingar um tillögurnar. Eins og VB.is greindi frá á mánudag stefnir sérfræðihópurinn á að skila af sér á morgun.

Í Fréttablaðinu er rifjað upp að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi lýst því yfir að tillögurnar feli í sér blandaða leið þar sem gripið verður annars vegar til beinna aðgerða og hins vegar skattaaðgerða. Vonir standa til að koma málinu í gegnum Alþingi öðru hvoru megin við áramót.

Týr sagði frá því í pistli sínum á VB.is í gær að orðrómur væri um að kostnaðurinn við skuldaniðurfærslu verðtryggðra lána verði um 90 milljarðar króna.