Í framhaldi af nýrri stefnumörkun Marel samstæðunnar sem kynnt var á aðalfundi félagsins og kaupum Marel á tveimur breskum fyrirtækjum AEW Delford Systems Ltd. í Bretlandi hafa verið gerðar eftirfarandi breytingar í stjórnendahóp fyrirtækisins.

Samkvæmt tilkynningu frá Marel hefur Ásgeir Ásgeirsson tekið við stöðu forstjóra nýs félags í eigu Marel hf., AEW Delford Systems Ltd. á Bretlandi. Ásgeir hóf störf hjá Marel árið 1986 og starfaði lengst af við vöruþróun fram til ársins 1996. Hann var forstöðumaður upplýsingatæknideildar og síðar gæðamála frá 1996 til 2001. Ásgeir varð annar af tveimur framkvæmdastjórum vöruþróunar árið 2001 og gegndi því starfi til marsloka 2006. Árið 2004 tók hann einnig að sér framkvæmdastjórn fyrir Póls hf. á Ísafirði þegar Marel eignaðist það félag og sinnti því starfi þar til það var sameinað Marel í árslok 2005. Ásgeir lauk B.S. prófi í rafmagnsverkfræði frá H.Í 1986, B.S. prófi í tölvunarfræði frá H.Í 1990 og meistaragráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá University of Washington, Seattle, 1993.

Jón Birgir Gunnarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar AEW Delford, Bretlandi. Jón hóf fyrst störf hjá Marel sumarið 1996, þá í sumarstarfi en var fastráðinn í byrjun árs 1997. Á tímabilinu 1997 - 2002 fékkst Jón við hönnun kerfislausna, þá var hann einnig í verkefnastjórnun og svæðissölustjórnun. Frá 2002 hefur hann verið ráðgjafi á Ráðgjafasviði Marel eða þar til hann tók við nýju starfi hjá nýju félagi Marel í Bretlandi. Jón er með meistarabréf í vélsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1997 og véliðnfræði frá Tækniskóla Íslands 1997. Hann hóf MBA nám í HÍ haustið 2005.

Sigsteinn P. Grétarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar Marel hf. Sigsteinn hefur starfað hjá Marel síðan 1997 sem sölustjóri og ráðgjafi á sölu og markaðssviði. Árið 2001 flutti Sigsteinn til Brisbane í Ástralíu við stofnun dótturfélags Marel í Ástralíu og var framkvæmdastjóri félagsins til 2005. Eftir heimkomu til móðurfélagsins hefur hann unnið að samruna og fjárfestingaverkefnum. Sigsteinn er með B.S. próf í vélaverkfræði frá Bradley University, Illinois árið 1990 og M.S. próf í vélaverkfræði frá University of Illinois, Urbana-Champaign í Bandaríkjunum árið 1992.

Kristján Hallvarðsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra vöruþróunarferlis hjá Marel hf. Kristján hefur starfað hjá Marel síðan 1993 við verkefni tengd vöruþróun á Rafbúnaðarsviði og Tækjahugbúnaðarsviði. Hann var við sölu og þjónustu hjá Marel USA í Bandaríkjunum 1995 - 1998. Hann var vörustjóri skurðarvélahóps 2001 - 2006. Kristján lauk B.S. prófi í rafmagnsverkfræði frá H.Í. 1993 og M.S í rafmagnsverkfræði frá NCSU, 1998.

Ragnheiður Halldórsdóttir, hefur tekið við stöðu forstöðumanns upplýsingatækni- og gæðamála hjá Marel hf. Ragnheiður hefur starfað hjá Marel frá 1995 við innleiðingu gæðakerfis og verið umsjónarmaður gæðamála. Þá varð hún gæðastjóri Marel árið 2000 og hefur verið aðstoðarmaður forstjóra í ýmsum sérverkefnum t.a.m. stýra stefnumótun Marel. Ragnheiður útskrifaðist með B.S. próf í vélaverkfræði frá HÍ 1991 og M.S. próf í rekstrarverkfræði frá DTU í Danmörku 1995.