Flestir stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru svartsýnir á horfurnar í íslensku atvinnulífi, jafnvel enn svartsýnni en á síðasta ári, samkvæmt niðurstöðum stjórnendakönnunar MMR. Athygli vekur að enginn stjórnandi fyrirtækja sem þátt tóku í könnuninni er mjög bjartsýnn.

Þrátt fyrir þetta má finna vonarglætu í viðhorfi stjórnenda til þróunar eigin fyrirtækja næsta árið. Tæplega 55% segjast jákvæðir.

Fyrir rúmu ári voru niðurstöður síðustu stjórnendakönnunar kynntar í Viðskiptablaðinu og hafa ýmsar breytingar orðið síðan þá. Færri eru svartsýnir á þróun efnahagslífsins nú en í fyrra eða 53% í stað 61,7%. Á móti fjölgar þeim sem telja að hagkerfið muni standa í stað næstu 12 mánuði.

Í úrtakinu voru 1168 stjórnendur (forstjórar, framkvæmda-, fjármála- og markaðsstjórar) í 706 fyrirtækjum. Rúmur þriðjungur var valinn úr úrtaki 300 stærstu fyrirtækja landsins (tilviljunarúrtak fyrirtækja af lista Creditinfo yfir 300 tekjuhæstu fyrirtæki landsins) en aðrir tilviljunarkennt úr fyrirtækjaskrá. Alls svöruðu 498 einstaklingar í 377 fyrirtækjum. Svarhlutfallið var því 42,6% hjá einstaklingum og 53,4% hjá fyrirtækjum.

Í könnuninni var sömuleiðis spurt um skoðanir stjórnenda í atvinnulífinu til gjaldmiðlamála, aðildarviðræður við Evrópusambandið og hvaða geira þeir telji að muni verða drifkrafturinn í hagkerfinu. Svörin er að finna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.