Um 70% stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins telja slæmt siðferði einkenna íslenskt viðskiptalíf, samkvæmt stjórnendakönnun MMR og Viðskiptablaðsins. Um 630 einstaklingar í 450 fyrirtækjum svöruðu könnuninni. Svipaðar niðurstöður fengust þegar spurt var um traust og gagnsæi. Rúmlega 30% stjórnenda sögðu traust og gegnsæi í íslensku viðskiptalífi mjög sæmt og rúmlega 40% sögðu það slæmt. Þegar spurt var um fagmennsku sögðu um 45% ástandið slæmt eða mjög slæmt. Niðurstöður má sjá hér að neðan.

Siðferði viðskiptalífsins - stjórnendakönnun MMR
Siðferði viðskiptalífsins - stjórnendakönnun MMR

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Svartsýni stjórnenda kemur hvergi jafnskýrt fram og í svörum þeirra um óefnislegar stærðir eins og siðferði, traust, gegnsæi og fagmennsku. Nánast enginn taldi nokkuð þessara atriða í mjög góðu lagi og sárafáir að þau væru í frekar góðu lagi.

Allnokkrir velktust í vafa, en algengustu svörin voru þau að ástandið væri slæmt. Og menn drógu ekkert af sér. Hvað siðferði og traust áhrærði töldu ⅔ að ástandið væri slæmt, en ¾ að gegnsæi væri lélegt.

Einnig er vert að gefa því gaum hve margir segja ástandið vera mjög slæmt.

Það var aðeins þegar spurt var um fagmennsku, sem eilítið örlaði á jákvæðari afstöðu, en ekki svo í frásögur sé færandi. Aðeins um 16% töldu ástandið vera gott að því leyti.

Ekki var verulegur munur á afstöðu svarenda eftir atvinnugreinum, kynferði eða stöðu. Á hinn bóginn voru svarendur úr allra stærstu fyrirtækjum áberandi ánægðari en hinir, en engin ósköp samt.

Tólf blaðsíðna sérblað fylgir Viðskiptablaðinu í dag þar sem ítarlega er greint frá niðurstöðum stjórnendakönnunar MMR og Viðskiptablaðsins.