Samningar hafa tekist um að nýir eigendur eignist bílaleiguna ALP ehf. með yfirtöku skulda og kaupum á nýju hlutafé. Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að viðskiptin marki lokin á endurskipulagningu félagsins. Samningar eru gerðir með fyrirvara um endanlegt samþykki alþjóðlegu bílaleigufyrirtækjanna AVIS og Budget um tilfærslu á leyfi til nýrra eigenda.

„Opið söluferli hófst 26. mars sl.  og hefur Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annast ferlið fyrir hönd ALP og kröfuhafa félagsins. Fjögur tilboð bárust í félagið með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og skiluðu allir þeir aðilar skuldbindandi tilboðum að lokinni áreiðanleikakönnun. Endanleg tilboð voru opnuð þann 7. maí sl. í viðurvist óháðs eftirlitsaðila sem staðfesti efnisinnihald tilboðanna. Á grundvelli tilboðanna var gengið til viðræðna við hæstbjóðendur," segir í tilkynningunni.

Kaupendahópinn skipa þeir Vilhjálmur Sigurðsson núverandi sölu- markaðsstjóri ALP ehf., Þorsteinn Þorgeirsson núverandi flotastjóri ALP ehf., Hjálmar Pétursson fyrrum framkvæmdarstjóri ALP, Ársæll Hreiðarsson og Ingi Guðjónsson. Fyrirtækjaráðgjöf Auðar Capital var ráðgjafi kaupenda.

Möguleikar til vaxtar miklir

Í fréttatilkynningunni er þetta haft eftir Hjálmari Péturssyni sem er í nýja hluthafahópnum og er fyrrverandi framkvæmdastjóri ALP: ,,Sá hópur sem kemur að Alp núna þekkir félagið og rekstur þess mjög vel. Við sáum mikil tækifæri í Alp ehf. enda er markaðsstaða félagsins mjög sterk og vörumerki þess með þeim þekktustu í heimi. Eins og allir vita hefur ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi verið í mikilli sókn á síðustu árum og trúum við því að sú sókn muni halda áfram af sama krafti þrátt fyrir tímabundna erfiðleika síðustu vikur. Við teljum að með því góða starfsfólki sem starfar hjá félaginu sé framtíð þess björt og möguleikar til vaxtar miklir. Við erum mjög ánægðir með kaupin og við hlökkum til að takast á við komandi verkefni og byggja upp enn öflugra félag til framtíðar.“