Þeir stjórnendur Eimskips sem féllu frá umsömdum kaupréttum vegna óánægju líeyrissjóða fengu ekki umbun eða önnur fríðindi. Þetta segir Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs fyrirtækisins, og Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips, í viðtali við MBL.is í dag en þeir áttu báðir kauprétti.

„Við mátum það svo í ljósi umræðunnar að það hefði skaðað hagsmuni Eimskips ef við hefðum haldið kaupréttunum,“ segir Hilmar. „Þetta var því hið eina rétta.“ Bragi Þór staðfestir ummæli Hilmars. Hann segir að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða stjórnendanna.