Aðstæður í atvinnulífinu hafa farið versnandi sem og horfur á þessu ári, samkvæmt könnun meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í desember. Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar á vef Samtaka atvinnulífsins . Tveir af hverjum þremur stjórnendum telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar og einungis 4% þeirra telja þær góðar, en aðrir að þær séu hvorki góðar né slæmar.

Breytingin frá síðustu könnun í september 2012 er töluverð en þá taldi innan við helmingur aðstæður slæmar. Allir stjórnendur í byggingariðnaði telja aðstæður slæmar sem og tæp 90% stjórnenda í sjávarútvegi. Nægt framboð er af starfsfólki og þeim fyrirtækjum fer fækkandi sem skortir starfsfólk. Í heild er búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum. Verðbólguvæntingar fara minnkandi en eru þó háar þar sem búist er við 4,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Í öllum atvinnugreinum nema fjármála- og tryggingastarfsemi telur mikill meirihluti stjórnenda aðstæður slæmar.