Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna mun lakara mat á aðstæðum í atvinnulífinu en þessi reglubundna könnun hefur sýnt síðan árið 2014. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins . Einungis fjórðungur stjórnendanna telur aðstæður góðar og tveir þriðju hlutar telja að þær versni á næstu sex mánuðum.

Skortur á starfsfólki er lítill, svipaður og á árunum 2012-2014, og áformuð er töluverð starfsmannafækkun.

Verðbólguvæntingar stjórnenda fara vaxandi. Að jafnaði er búist við 4% verðbólgu á næstu 12 mánuðum í stað 3% í fyrri könnunum á þessu ári.

Starfsmönnum gæti fækkað um 1.400 næstu sex mánuði

24 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Í fyrsta sinn síðan vorið 2009 koma fram áform um fækkun starfsfólks í könnuninni. 10% fyrirtækjanna býst við fjölgun starfsmanna en 30% býst við fækkun þeirra á næstu sex mánuðum.

Áætla má út frá stærðardreifingu fyrirtækjanna að starfsmönnum þeirra fækki um 1,2% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna vinnumarkaðinn í heild má ætla að störfum fækki um 1.400. Störfum hjá fyrirtækjum sem áforma fjölgun gæti fjölgað um 600 en fækkun starfa hjá þeim sem áforma fækkun gæti numið um 2.000 og nettó niðurstaðan því fækkun um 1.400 störf.

Þessi niðurstaða rímar sæmilega við könnun meðal aðildarfyrirtækja SA í byrjun nóvember sl. Í henni kom fram að aðildarfyrirtækin áformuðu uppsagnir 2.800 starfsmanna á næstu þremur mánuðum. Í þeirri könnun var ekki spurt um áformaðar ráðningar starfsmanna og því ekki unnt að draga ályktun um nettófækkun starfsmanna þeirra á þessu tímabili. Jafnframt var spurt um uppsagnir í nóvember, desember og janúar, en búast má við sterkum árstíðaráhrifum þar sem atvinnustig er jafnan lægra í janúar en aðra mánuði ársins.

Fyrirtæki í iðnaði og sjávarútvegi áforma meiri fækkun starfsmanna en fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Í iðnaði áformar helmingur fyrirtækja fækkun starfsmanna en 3% þeirra áforma fjölgun og í sjávarútvegi áforma rúm 40% fyrirtækja fækkun starfsmanna en ekkert þeirra áformar fjölgun. Fækkunaráform eru mest hjá fyrirtækjum með 100-200 starfsmenn. Í þeim stærðarflokki áforma 35% fyrirtækja fækkun starfsfólks en 10% þeirra áforma fjölgun.