Sex fyrrverandi og núverandi lykilstjórnendur Alvotech hafa áunnið sér milljarða bónusgreiðslu hjá félaginu. Samkvæmt skráningarlýsingu sem Alvotech birti í desember höfðu stjórnendurnir áunnið sér (e. vested) inn 70 milljóna dollara bónusgreiðslu, eða um 9 milljarða króna, um mitt ár 2021 byggt á hækkun á verðmati félagsins. Félagið á í viðræðum um uppgjör á bónusgreiðslunum, sem geta verið greiddar út í reiðufé eða eignarhlutum í Alvotech í tengslum við fyrirhugaða skráningu félagisns á markað.

Til stendur að skrá Alvotech í Nasdaq kauphöllina í New York og á First North markaðinn á Íslandi í gegnum svonefndan SPAC-samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II í Bandaríkjunum.

Alls námu bókfærðar skuldbindingar Alvotech vegna bónusgreiðslna 101 milljónum dollara um mitt síðasta ár, eða um 13 milljarða króna. Þar af nam skuldbinding vegna sérstaks kaupaukakerfis (SAR) til þriggja fyrrverandi og þriggja núverandi lykilstjórnenda Alvotech 86 milljónum dollara, um 11 milljörðum króna, en þar af voru um 9 milljarðar króna þegar áunnir eins og áður sagði.

Megnið af skuldbindingunni eða 56 milljónir dollara, um 7,3 milljarðar króna, kom til fyrri hluta ársins 2021 vegna hækkunar á markaðsvirði Alvotech.

Í svari við fyrirspurn til Alvotech segir að fjárhæðin byggi á verðmati á Alvotech þegar skuldabréfaeigendur félagsins nýttu sér breytirétt í félaginu sem var 2,7 milljarðar dollara. Fjárhæðin verði endurreiknuð út frá verðmæti félagsins við fyrirhugaða skráningu á markað.

Áætlað virði Alvotech við skráningu á markað síðar á árinu er um 2,25 milljarðar dollara en þar af er hlutur núverandi hluthafa metinn á um 1,8 milljarða dollara. Þá vinnur Alvotech að því að setja upp nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn í tengslum við skráninguna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .