True North Holdings Group Ltd., sem er í meirihluta eigu æðstu stjórnenda Avion Group, hefur keypt 15 milljónir hluta í félaginu á genginu 38,3 krónur á hlut, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Kaupverð hlutarins nemur rúmlega 574 milljónum króna.

Magnús Stephensen, framkvæmdastjóri hjá Avion Group, Magnús G. Thorsteinn, lögmaður félagins, Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Air Atlanta, og Hannes Hilmarsson, fjármálastjóri Avion Group, eiga 80,5% hlut í True North Holdings. Og eftir viðskiptin á félagið 43.768.160 hluti í Avion Group.

Hlutinn keypti True North af Arngrími Jóhannssyni, stjórnarmanni í Avion Group og stofnanda Atlanta, og eftir viðskiptin á hann 35 milljónir hluta á félaginu.

Einnig hefur félag í eigu Baldurs Guðnasonar, forstjóra Eimskips, og Steingríms Péturssonar fjármálastjóra Avion Group, selt 50.788.949 hluti í Avion Group Fjárfestingafélagsins Sjafnar, sem er í eigu sömu aðila.

Kaupverð á hlut er það sama og í nýlegu umframhlutafjárútboði Avion Group, 38,3 krónur á hlut, en gríðarlega umframeftirspurn var eftir bréfum í félaginu á meðal fagfjárfesta.

Óskuðu fagfjárfestar eftir ríflega 100 milljörðum króna, sem er sextánfalt meira en í boði var. Í ljósi hinnar miklu umframeftirspurnar var ákveðið að selja nýja hluti að andvirði 10 milljarða króna í stað sex á genginu 38,3. Það gengi eru efri mörk þess verðbils sem kom fram í útboðslýsingu. Meðal kaupenda voru allir helstu lífeyrissjóðir landsins, auk verðbréfasjóða og fjárfestingafélaga.