Stjórnendur og starfsmenn Baugs mátu sjálfir verð óskráðra eigna fyrirtækisins við gerð árshlutauppgjörs árið 2008. Niðurstaða þeirra var sú að verðið hafi hækkað verulega í verði frá árslokum 2007 og fram á mitt ár 2008. Á sama tíma hrundi verðmæti skráðra eigna. Engin óháð verðmöt liggja fyrir á óskráðum eignum Baugs. Af þessum sökum gaf óendurskoðað uppgjör Baugs ranga mynd af stöðu fyrirtækisins.

Þetta kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þrotabús Baugs gegn þrotabúi SPRON. Þar kemur fram að skiptastjóri telji stöðu Baugs hafa verið muni verri en stjórnendur fyrirtækisins hafi látið í veðri vaka. Tekið hafi að halla verulega undan fæti í rekstrinum haustið 2007 og eigið fé farið þverrandi. Staðan hafi því verið orðin afar slæm á fyrri hluta árs 2008 og reksturinn í andaslitrunum í síðasta lagi um mitt ár. Tímaspursmál hafi verið hvenær að gjaldþroti kæmi.

Fram kemur í málinu að engir endurskoðaðir árshlutareikningar Baugs séu til frá árslokum 2007 að undanskildum óendurskoðuðum árshlutareikningum fyrir fyrri hluta árs 2008 ásamt upplýsingum úr efnahagsreikningi.

Þessi gögn, sem sýnd voru kröfuhöfum Baugs á fundi 27. febrúar 2009, gefa að mati skiptastjóra ekki rétta mynd af fjárhag félagsins enda kemur þar fram að óskráðar eignir hafi hækkað í verði frá árslokum 2007 og fram á mitt ár 2008. Á sama tíma hafi gengi skráðra eigna lækkað verulega.

Á sama tíma og Baugur barðist í bökkum unnu stjórnendur að endurreisnarráætlun sem nefndist Project Sunrise og fól í sér að lánardrottnar Baugs myndu breyta kröfum í hlutafé. Endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse Coopers fór síðar yfir tillögur Baugs í endurreisnaráætluninni og var niðurstaðan sú að þær væru í senn óraunhæfar og óframkvæmanlegar.

Dómgreindarbrestur framkvæmdastjóra

Þetta var staðfest í málinu í dag en þar kom fram í rökum skiptastjóra Baugs að óumdeilt sé að stjórnendur félaga í miklum fjárhagserfiðleikum, sérstaklega ef þeir eigi mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta, bresti oft dómgreind til þess að meta stöðu þess af skynsemi og skipuleggja endurreisn rekstrarins eða fjármála að öðru leyti.

Endurreisnaráætlun Baugs gekk ekki eftir. Í framhaldinu ákvað skilanefnd Landsbankans að óska eftir greiðslustöðvun dótturfélags fyrirtækisins í Bretlandi vorið 2009 og taka yfir eignahluti þess í matvörukeðjunni Iceland Foods, Hamley’s, House of Frasier og í öðrum smærri fyrirtækjum. Dagar Baugs voru þar með taldir.

Iceland-keðjan verðmætari en stjórnendur töldu

Taka verður fram að í endurreisnaráætlun Baugs var Iceland-keðjan verðmetin á einn milljarð punda. Það þótti ofmat á sínum tíma. Eins og fram hefur komið er söluferli á 77% hlut skilanefndar Landsbankans og Glitnis langt komið. Samkvæmt þeim tölum sem nefndar hafa verið á ýmsum stigum tilboðsferlisins er matvörukeðjan metin á um 1,4 til 1,5 milljarða punda, jafnvirði allt að 260 milljarða króna.