Könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins endurspeglar góðar aðstæður í öllum helstu atvinnugreinum atvinnulífsins. Þetta kemur fram í frétt Samtaka Atvinnulífsins.

28% finnst vera skortur á starfsfólki

Búast má við rúmlega 1% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum, sem svarar til 1.400 starfa. Skortur á starfsfólki og áformuð fjölgun starfsmanna er langmest í byggingarstarfsemi.

Þeim fyrirtækjum fjölgar stöðugt sem telja sig búa við skort á starfsfólki en nú telja 28% stjórnenda skort vera á starfsfólki.

Stjórnendur bjartsýnir á efnahaginn

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar muninn á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er nú á sömu slóðum og árið 2007 þegar hún varð hæst. Mikill meirihluti stjórnenda, 62%, telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 3% að þær séu slæmar.

Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri en að þær verði verri eftir sex mánuði. Rúmlega 40% telja aðstæður verða betri en 11% verri.

Vænta 3,6% verðbólgu

Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 3,6% sem er sama niðurstaða og í síðustu könnun.

Væntingar stjórnenda um verðbólgu á næsta ári eru í hátt við spár Hagstofunnar og Seðlabankans sem gerðar voru í nóvember sl., en þær kváðu á um 3,2% og 3,3% hækkun verðlags milli áranna 2015 og 2016.