Framkvæmdastjóri HSBC, Stuart Gulliver, og fyrrum yfirmaður einkabankasviðs bankans, Chris Meares. komu fyrir breska þingnefnd í dag. Einnig mun Rona Fairhead svara spurningum um hlutverk hennar hjá HSBC en hún hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2004. Kemur þetta fram í frétt BBC.

Segist ætla að axla ábyrgð

Douglas Flint stjórnarmaður HSBC sagði fyrir um tveimur vikum að sökin um meint samsæri milli bankans í Sviss og viðskiptavina hans til að komast hjá því að borga skatta lægi hjá Chris Mearses, fyrrverandi yfirmanns einkabankastarfsemi HSBC.

Flint sagði þingmönnum í fjárlaganefndinni að Mearses og Clive Bannister, sem var yfirmaður einkabankasviðs til ársins 2006, bæru beina ábyrgð á því hvað gerðist þegar þeir voru við stjórnvölinn. Á sama fundi sagði Gulliver að málið hafi skemmt traust og trúverðugleika bankans. Einnig sagði Flint að hann fyndi til skammar vegna málsins og að hann myndi taka sinn hluta af ábyrgðinni.

Viðskiptaritstjóri BBC, Kamal Ahmed, sagði að í kringum árið 2000 höfðu stjórnarmenn litla yfirsýn yfir það hvernig starfseminni í Sviss var háttað. En mjög strangar reglur voru í gildi um trúnað bankareikninganna í Sviss og því sé erfitt að ætlast til þess að stjórnarmennirnir hafi átt að vita betur.

Leynd hvíldi yfir starfseminni í Sviss

Jafnframt segir Kamal að þingmennirnir munu hafa mikinn áhuga á að vita af hverju einkabankasviðið í Sviss starfaði í svo mikilli leynd fyrir sinni eigin stjórn.

Lekið var upplýsingum um 30.000 svissneska reikninga til franskra skattayfirvalda árið 2007 sem kom upplýsingunum áfram til breska skattayfirvalda. HSBC hefur verið bendlað við þónokkur hneyksli á síðustu misserum, m.a. markaðsmisnoktun á gjaldeyrismörkuðum og kerfisbundna skekkingu á alþjóðlegum millibankavöxtum.