Stjórnendur stærstu banka Evrópu brýna niðurskurðarhnífana nú um stundir. Commerzbank, næst stærsti banki Þýskalands, áformar að segja upp 5.200 starfsmönnum á næstunni. Þetta jafngildir um 12% af öllum starfsmönnum bankans en þeir eru í heildinar rúmlega 40 þúsund.

Reuters-fréttastofan segir fleiri banka með hnífana á lofti. Þar á meðal eru Lloyds, hollenski bankinn ABN Amro og HSBC. Hertar reglur á fjármálafyrirtæki og verri afkoma en áður skýra uppsagnirnar.