Stjórnendur á meðal stærstu fyrirtækja landsins vænta þess nú að verðbólgan á næstu 12 mánuði verði 4,0%. Þetta eru niðurstöður könnunar Capacent Gallup sem Seðlabanki Íslands birtir í Hagvísum bankans fyrir marsmánuð. Er þetta veruleg aukning frá því síðasta könnun var gerð, sem var í desember síðastliðnum, en þá bjuggust þeir við að árstaktur verðbólgu yrði 2,0% á næstu 12 mánuðum og þá undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Jafnframt er þetta í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi 2009 sem verðbólguvæntingar stjórnenda aukast frá síðustu könnun.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Umfjöllun greiningar Íslandsbanka:

Þegar könnunin var gerð, sem var á tímabilinu 10. - 17. mars, var aðeins búið að birta vísitölu neysluverðs fyrir febrúarmánuð og nam þá tólf mánaða taktur vísitölunnar 1,9%. Er því um verulegan mun að ræða á milli verðbólgunnar á þeim tíma sem framkvæmd könnunarinnar átti sér stað og þeirrar sem stjórnendur fyrirtækja væntu til eins árs, og í raun hefur munurinn oftar en ekki legið á hinn veginn frá því að mælingar hófust á verðbólguvæntingum.

Það að stjórnendur vænti nú meiri verðbólgu kemur okkur ekki á óvart enda í takti við þá þróun sem við höfum verið að reikna með. Þó er ljóst að þetta er nokkru meiri verðbólga en við og aðrir sem gera opinberar verðbólguspár höfum verið að reikna með. Ekki er ólíklegt að þær miklu hækkanir sem hafa orðið á olíuverði og verði á öðrum hrávörum á alþjóðlegum mörkuðum og hafa leitt þess að verðbólgan hefur aukist víðast hvar erlendis hafi sett sitt mark á sýn stjórnenda nú, enda hafa fréttir þess efnis verið fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum landsins sem og erlendis á síðustu mánuðum.

... en það dregur úr verðbólguvæntingum almennings
Oftar en ekki hafa stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins samkvæmt ofangreindri könnun vænst minni verðbólgu næsta árið en heimili. Að þessu sinni er staðan önnur þar sem dregið hefur úr verðbólguvæntingum heimila, þó lítillega, á sama tíma og þær aukast hjá stjórnendum. Þannig vænta heimili landsins þess að verðbólgan á næstu 12 mánuðum verði 3,5% en í síðustu könnun, þ.e. í desember, væntu þau 4,0% verðbólgu. Hafa væntingar heimila um verðbólgu ekki verið minni síðan á þriðja ársfjórðungi 2004, en ljóst er að þær eru enn nokkuð yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Framangreind þróun, þ.e. að það dregur úr verðbólguvæntingum almennings á sama tíma og þær aukast hjá stjórnendum, eru augljóslega hvort í senn jákvæð og neikvæð tíðindi fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans. Væntingar heimila um minni verðbólgu geta m.a. leitt til þess að launakröfur launþega verða minni en ella sem, að öðru óbreyttu ætti að leiða til minni verðbólguþrýstings þegar fram í sækir. Á hinn bóginn geta auknar verðbólguvæntingar á meðal stjórnenda leitt til meiri verðbólguþrýstings þar sem seljendur innlendrar vöru og þjónustu hækka frekar verð ef þeir búast við almennri hækkun verðlags.