*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 19. mars 2019 12:51

Stjórnendur búast við minnkandi umsvifum

Ný könnun SA og SÍ meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins bendir til minnkandi umsvifa í atvinnulífinu.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Haraldur Guðjónsson

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna minnkandi umsvif í atvinnulífinu á næstunni. Mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu hefur gerbreyst til hins verra og væntingar þeirra eru að þær versni enn á næstu sex mánuðum. Könnunin hefur verið gerð ársfjórðungslega frá árinu 2006. Greint er frá þessu á vef SA.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er skortur á starfsfólki er nánast enginn og útlit fyrir fækkun starfa á næstu sex mánuðum. Þá er útlit fyrir að fjárfestingar dragist verulega saman milli ára, einkum í ferðaþjónustu. Stjórnendur vænta 4% verðbólgu á næstu 12 mánuðum og 3,5% verðbólgu eftir tvö ár og einnig eftir fimm ár.

Vísitala efnahagslífsins ekki lægri síðan 2013

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hefur ekki verið lægri síðan árið 2013. 26% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 45% fyrir þremur mánuðum og 60% fyrir sex mánuðum síðan. 32% telja þær slæmar samanborið við 12% fyrir þremur mánuðum. Væntingar eru langminnstar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði eru áfram minni en frá upphafi þessara mælinga. 60% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 54% fyrir þremur mánuðum og 40% fyrir sex mánuðum. Einungis 8% telja að þær batni, en þar af er enginn stjórnandi í ferðaþjónustu. Í öllum atvinnugreinum vænta margfalt fleiri stjórnendur því að aðstæður versni en að þær batni.

Störfum fækki um 500 á næstu 6 mánuðum

Skortur á starfsfólki minnkar hratt og er nú svipaður og árið 2012. Einungis 11% finna fyrir skorti samanborið við 32% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er einkum í byggingariðnaði.

25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 17% fyrirtækjanna býst við fjölgun starfsmanna en 22% býst við fækkun þeirra á næstu sex mánuðum.

Áætla má út frá stærðardreifingu fyrirtækjanna að starfsmönnum þeirra fækki um 0,4% á næstu sex mánuðum en fyrir þremur mánuðum gáfu niðurstöður til kynna áform um 1,2% starfsmannafækkun. Sé þessi niðurstaða færð yfir á almennan vinnumarkað í heild gæti störfum fækka um 500 á næstu sex mánuðum. Störfum hjá fyrirtækjum sem búast við fjölgun gæti fjölgað um 1.000 en fækkun starfa hjá þeim sem búast við fækkun gæti numið um 1.500 og nettó niðurstaðan því fækkun starfa um 500.

Stjórnendur fjármála- og sjávarútvegsfyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en þar á eftir koma stjórnendur í ferðaþjónustu. Í þessum atvinnugreinum virðist veruleg fækkun starfa framundan. Fækkun starfa í iðnaði virðist einnig framundan, en störfum gæti fjölgað í byggingarstarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Vænta verðbólgu yfir markmiði SÍ

Væntingar stjórnenda um verðbólgu eru nú 4% að meðaltali eins og fyrir þremur mánuðum sem er töluvert umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans og þær verðbólguvæntingar sem virtust hafa festi sig í sessi undanfarin í námunda við markmiðið. Þetta er óbreytt frá fyrri könnunum á árinu, en viðsnúningur frá síðustu tveimur árum.

Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,5% eftir tvö ár og einnig eftir fimm ár. Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 2,4% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 3,4%.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is