Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines, sem fór í greiðslustöðvun á síðasta ári, hefur fullvissað lánardrottna sína um að það útiloki ekki hugsanlega sameiningu við annað flugfélag, ef það nær að koma í veg fyrir óvinveitta yfirtöku flugfélagsins US Airways, samkvæmt heimildarmönnum sem þekkja vel til mála.

Ólíklegt þykir að kröfuhafar í þrotabú Delta gangist við því tilboði sem US Airways lagði fram fyrr í mánuðinum. Forstjóri Delta, Gerald Grinstein, hefur lýst því yfir að félagið stefni að því að komast frá gjaldþroti sem sjálfstætt fyrirtæki.

Til þess að ná því markmiði sínu, bendir flest til þess að stjórnendur Delta muni hverfa frá fyrri afstöðu sinni og samþykkja að gangast undir nokkur skilyrði sem lánardrottnanefndin vill setja fyrirtækinu. Þau skilyrði eru m.a. að hún muni hafa mikið um það að segja hverjir fái sæti í stjórn Delta eftir að greiðslustöðvun er lokið, þar sem lánardrottnanefndin vill að stjórnin verði skipuð fólki sem er meðmælt hugsanlegri sameiningu Delta við annað flugfélag.