Stjórnendur bandarísku netverslunarinnar Ebay eru svartsýnir á horfurnar en þeir telja verslun hafa dregist saman vegna vandræðagangs sem tengist bandarískum fjárlögum og hættunni af gjaldþroti Bandaríkjanna. Þá hafi dregið úr tiltrú Bandaríkjamanna á efnahag landsins.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Bob Swan, fjármálastjóra Ebay, að sökum þessa hafi dregið úr vexti netverslunar. Hann hafi numið 13% á þriðja ársfjórðungi sem var 3 prósentustiga samdráttur á milli fjórðunga. Ekki er batamerki að sjá í þessum mánuði, að hans sögn. Swan er jafnframt svartsýnn á þróunina í jólaverslun. Í afkomuspá fyrirtækisins er gert ráð fyrir 689 milljóna dala hagnaði á fjórða ársfjórðung í ár borið saman við 597 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Gert er ráð fyrir því að tekjurnar verði 4,5-4,6 milljarðar dala sem er örlítið undir tekjum fyrirtækisins á sama tíma í fyrra. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra námu þær 4,64 milljörðum dala. Swan segir viðbúið að afkoman verði í lægri kantinum.

Þá bendir Reuters-fréttastofan á að í samkomulaginu sem bandarískir öldungadeildarþingmenn náðu saman um í gær hafi greiðsluþroti landsins verið aflýst í bili. Heimild til að hækka skuldaþak ríkisins, þ.e. hversu mikið bandaríska ríkið geti fengið að láni, stendur hins vegar aðeins fram í miðjan janúar á næsta ári. Af þeim sökum sé ekkert sem komi í veg fyrir að opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki loki á nýjan leik og hátt í milljón starfsmanna verði send heim í launalaust leyfi á meðan bandarískir þingmenn setjist niður yfir málinu á nýjan leik.