Nokkrir af æðstu stjórnendum Eimskips eiga tæplega 55 þúsund hlut í félaginu. Þeir keyptu hlutina í almennu útboði um síðustu mánaðamót. Verðmæti þeirra nemur rúmum 11,4 milljónum króna. Allir keyptu þeir á sama gengi og aðrir fjárfestar, 208 krónur á hlut. Þá keyptu einstaklingar tengdir Braga Ragnarssyni, formanni stjórnar Eimskips, og Ólafi Helga Ólafssyni, varaformanni stjórnar, hlutabréf fyrir samtals 19,5 milljónir króna.

Starfsmenn Eimskips máttu kaupa hlutabréf Eimskips í útboðinu fyrir tvær milljónir króna án þess að fá skertan hlut vegna umframeftirspurnar. Þakið nam einni milljón króna fyrir aðra sem tóku þátt í útboðinu.

Tómas Kristjánsson, sem situr í stjórn Eimskips, keypti mest eða 9.858 hluti í félaginu og nemur verðmæti þeirra rétt rúmum tveimur milljónum króna. Þá keypti forstjórinn Gylfi Sigfússon 9.615 hluti fyrir rétt tæpar tvær milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Aðrir framkvæmdastjórar Eimskips og Ólafur Helgi Ólafsson, varaformaður stjórnar Eimskips, keyptu það sem út af stendur en mismikið þó.

Hlutabréf Eimskips verða skráð á hlutabréfamarkað á nýjan leik á föstudagsmorgun.

Féllu frá kaupréttum og fengu ekkert í staðinn

Framkvæmdastjórar Eimskips voru harðlega gagnrýndir vegna kaupréttanna í aðdraganda hlutafjárútboðsins. Þeir fengu kaupréttina á árunum 2010 og 2011 og fólu þeir í sér að stjórnendurnir gátu keypt hlutabréf Eimskips með í kringum 40% afslætti. Kaupréttirnir jafngiltu 4,38% af heildarhlutafé Eimskips og hefði virði hlutabréfanna geta numið á bilinu 1,7 til 1,9 milljörðum króna. Fallið var frá kaupréttum stjórnenda Eimskips um síðustu mánaðamót.