Þegar litið er til launaþróunar síðustu átta ára sést að heildarlaun stjórnenda hafa þróast með nokkuð svipuðum hætti og heildarlaun á almennum vinnumarkaði. Í fréttatilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins kemur fram að heildarlaun á almennum vinnumarkaði hafi hækkað um 45,2% frá árinu 2006 en laun stjórnenda um 43,6%. Í kjölfar efnahagskreppunnar hafi stjórnendur lækkað talsvert í launum og kunni að vera að sú lækkun hafi verið að ganga til baka síðastliðið ár.

Samtök atvinnulífsins telja þó að launahækkanir stjórnenda milli ára valdi áhyggjum og launahækkanir rími ekki við áherslur SA um aukinn verðstöðugleika og kaupmátt. Í tilkynningunni segir að stjórnendur íslenskra fyrirtækja verði að sýna gott fordæmi og undanskilja ekki sjálfa sig í þeim breytingum sem verið sé að innleiða á íslenskum vinnumarkaði.

Fréttatilkynningin kemur í kjölfar samantektar Frjálsrar verslunar um að laun æðstu stjórnenda landsins hafi hækkað um 13% milli ára og laun millistjórnenda enn meira.