Stjórnendur undirstofnana ráðuneytanna verða ekki kallaðir fyrir fjárlaganefnd að svo stöddu. Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar í viðtali við Fréttablaðið í dag. Hún segir að beðið verði eftir níu mánaða uppgjöri og staðan skoðuð þá. Stofnanir ríkisins fóru sjö milljarða fram úr áætlunum á fyrst sex mánuðum ársins en þar af var Vegagerðin komin 1,7 milljarða fram úr fjárheimildum og Sjúkratryggingar Íslands 1,8 milljörðum.

Á fundi fjárlaganefndar í gær kom í ljós að innanríkisráðuneytið væri í heild innan fjárheimilda þrátt fyrir þetta.