Yfirtökutilbooð gert örðum hluthöfum, unnið að afskráningu.
FMB, félag í eigu helstu stjórnenda Fiskmarkaðar Íslands, hefur keypt 50,38% hlut í félaginu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Stofnendur FMB ehf eru Páll Ingólfsson, Guðmundur Smári Guðmundsson, stjórnarmenn, Hjálmar Kristjánsson varamaður í stjórn, Tryggvi L. Óttarsson framkvæmdastjóri og Fannar Baldursson fjármálastjóri Fiskmarkaðs Íslands hf.

FMB greiðir fyrir 50,38% hlutafjár í Fiskmarkaði Íslands með hlutafé í FMB, segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni kemur fram að félagið mun leggja fram yfirtökutilboð til hluthafa Fiskmarkaðs Íslands í samræmi við ákvæði VI. sbr. VII. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti.

Hluthöfum í Fiskmarkaði Íslands verður boðið að selja hluti sína í félaginu á genginu 6,6 samkvæmt nánari skilmálum í tilboðsyfirliti sem birt verður innan fjögurra vikna.

"FMB hyggst með kaupum sínum á hlutum í Fiskmarkaði Íslands styðja stjórnendur félagsins við að framfylgja þeirri stefnu sem þeir hafa mótað og fylgt á undanförnum árum," segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.