Fjármálaeftirlitið hyggst frá og með 15. nóvember 2005, taka upp sérstakt hæfismat þegar nýir framkvæmdastjórar taka til starfa hjá fjármálafyrirtækjum, vátryggingafélögum, vátryggingamiðlunum og lífeyrissjóðum. Hið sama gildir þegar sótt er um nýtt starfsleyfi eða við breytingar á starfsleyfum, eftir atvikum.

Þess ber að geta að um nokkurt skeið hefur verið framkvæmt slíkt mat á vátryggingasviði sem mælst hefur vel fyrir og hefur reynst gott tækifæri fyrir nýja framkvæmdastjóra til þess að setja sig vel inn í það regluverk sem gildir um starfsemi viðkomandi félaga segir í frétt Fjármálaeftirlitsins. Einnig mun fara fram mat á stjórnarmönnum hjá þessum félögum, en þó ekki með jafn ítarlegum hætti og gildir fyrir framkvæmdastjóra félaganna.Um framkvæmd hæfismats vísast til verklýsingar sem birt er á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins í dag og verður jafnframt send eftirlitsskyldum aðilum til upplýsingar á næstu dögum.