Svo virðist sem stjórnendur farsímaframleiðandans HTC bíði í röðum eftir því að yfirgefa fyrirtækið. Bloomberg-fréttaveitan greinir frá því að rekstrarstjórinn Matthew Costello sé horfinn á braut og hafi hann bæst í hóp með fyrrverandi forstjóra HTC í Asíu og fleiri manns.

Nokkrir erlendir tækniskríbentar, s.s. þeir á netmiðlinum VentureBeat , segja flótta starfsmanna skýrast af lélegu uppgjöri HTC. Fyrirtækið hefur glutrað niður markaðshlutdeild sinni á farsímamarkaði, ekki síst í Bandaríkjunum, og er afkoman eftir því. HTC hagnaðist um aðeins 85 milljónir taívanskra dala á fyrsta ársfjórðungi og var það ekki nema svipur hjá sjón í samanburði við sama fjórðung í fyrra þegar hagnaðurinn nam 4,4 milljörðum tævanskra dala. Þetta var sjötti ársfjórðungurinn í röð sem hagnaður fyrirtækisins dregst saman og hefur hann nú aldrei verið minni.