Bandaríski netleitarisinn Google ætlar að greiða fjórum helstu stjórnendum fyrirtækisins um 15 milljónir dala, jafnvirði 1,9 milljarða króna, í bónus fyrir góðan árangur. Eric Schmidt, forstjóri Google, fær hæstu einstöku sporsluna eða um 6 milljónir dala. Það gera 760 milljónir íslenskra króna. Stofnendur Google, þeir Larry Page og Sergey Brin, fá ekki krónu á meðan þeir sem fengu vinnu við sköpunarverk þeirra, s.s. yfirlögfræðingur Google, fjármálastjórinn og annar til, geta klappað þykku veski. Þessir þrír skipta því sem út af stendur nokkurn vegin jafnt á milli sín.

Breska ríkisútvarpið, BBC , segir að þeir Page og Brin hafi við skráningu Google á hlutabréfamarkað árið 2004 samið um að fá sem nemur einum Bandaríkjadal í laun á ári hjá Google. Vissulega lifa þeir ekki lengi á þeim lúsarlaunum. Á hinn bóginn eiga þeir hlutabréf í fyrirtækinu sem metin eru á marga milljarða dala.

Á nýlegum lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir auðugustu einstaklinga í heimi er auður Page metinn á 23 milljarða dala og Brin á 22,8 milljarða. Það gera í kringum 2.900 milljarða íslenskra króna í vasa hvors þeirra. Þeir verma 20. og 21. sæti listans yfir ríkustu menn í heimi.