BPI Iceland Ltd., sem er dótturfélag  fjárfestingarfélagsins Black Pearl Investments, hefur keypt 50% hlut í í sænska leiguflugfélaginu Viking Airlines AB samkvæmt frétt breska dagblaðsins Independent í dag. Á bak við þessi kaup eru fyrrum yfirmenn í breska ferðaþjónustufyrirtækinu XL Leisure Group, sem var áður í eigu Avion Group og varð gjaldþrota á síðasta ári. Þeirra á meðal eru tveir Íslendingar.

Um að ræða 30.000 hluti í Viking Airlines AB sem nú eru komnir í eigu BPI Iceland Ltd. Independent segir að þarna sé um að ræða þá Phil Wyatt, stofnanda XL, Halldór Sigurðarson, fyrrum fjármálastjóra félagsins og Magnús Stephensen, sem sat í stjórn XL Leisure Group. Félagið BPI Iceland Ltd. er dótturfélag  fjárfestingarfélags Black Pearl Investments. Það félag er nefnt eftir Black Pearl sjóræningjaskipi Johnny Depp í kvikmyndinni Pirates of the Caribbean.

Magnús staðfesti þessi kaup við Independent, en Viking Airlines mun í sumar fljúga með breska sumarleyfisfarþega til meginlandsins í gegnum félagið Meridian Aviation sem er stjórnað af Jim Wyatt, bróður Phil Wyatt. Þá hefur Meridian nýlega gert flugsamning við Kiss Flights. Það félag er rekið af  Paul Moss, fyrrum stjórnarmanni í Freedom Flights, sem var dótturfélag XL Leisure.

Independen bendir á að minna en sex mánuðir séu síðan stofnandi LX Group, Phil Wyatt, hafi komið fram grátandi í sjónvarpi og gerði grein fyrir gjaldþroti félagsins. XL Leisure var áður í eigu Avion Group, áður Eimskips. Félagið var selt árið 2006 en ábyrgðir upp á 26 milljarða, sem Avion veitti vegna lána við söluna, féllu á Eimskip við gjaldþrotið.

Viking Airlines var stofnað árið 2003 og hóf rekstur með tveim McDonnel Douglas MD-83 tveggja hreyfla þotum. Þriðju þotunni var bætt við árið 2004 og þeirri fjórðu á árinu 2006. Félagið hefur verið að skipta þessum þotum út í stað tveggja Boeing 737-800 flugvéla.