Stjórn og stjórnendur sparisjóðanna höfðu takmarkaðan áhuga á innra eftirliti sjóðanna. Þetta var viðhorf þeirra innri endurskoðenda sem gáfu skýrslu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis um fall sparisjóðanna. „Oft voru sömu athugasemdir innri endurskoðanda ítrekaðar, sem bendir til að litlar breytingar hafi orðið í kjölfar þeirra,“ segir meðal annars í skýrslunni. Þar segir að nokkuð skorti á að gerðar væru skriflegar áætlanir um innri endurskoðun. „Í sparisjóðum sem hélst illa á starfsfólki í innri endurskoðunardeild og þar sem takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um innra eftirlit eða eftirfylgni má telja að deildirnar hafi ekki uppfyllt sem skyldi þær kröfur sem til þeirra eru gerðar í lögum, reglum og leiðbeinandi tilmælum nema að nafninu til. Á þetta sérstaklega við um Sparisjóð Mýrasýslu og Sparisjóðinn í Keflavík.“

Í skýrslunni segir enn fremur að smærri sjóðirnir hafi farið þá leið að sækja um undanþágu til Fjármálaeftirlitsins frá því að starfrækja innri endurskoðunardeild og fengu yfirleitt endurskoðunarfyrirtæki til þess verkefnis. Í nær öllum tilvikum var um að ræða sama fyrirtæki og sá um ytri endurskoðun. „Áherslur í úttektum endurskoðunarfyrirtækjanna voru ekki þær sömu í öllum tilvikum og skýrslur þeirra misítarlegar. Oft og tíðum voru sömu ábendingar gerðar ár eftir ár án þess að brugðist væri nægilega vel við þeim,“ segir um eftirfylgni af þessari vinnu.