Gunnar Sverrisson og Karl Þráinsson, forstjóri og aðstoðarforstjóri Íslenskra Aðalverktaka (ÍAV), reyndu að eignast fyrirtækið að nýju í nóvember í fyrra með því að gera Arion banka tilboð í það í samkurli við svissneska verktakafyrirtækið Marti Constructions. Arion banki hafnaði hins vegar tilboðinu og tók í kjölfarið yfir Drög ehf., móðurfélag ÍAV. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að tilboðið hafi einfaldlega ekki þótt nógu hátt.

Gunnar og Karl voru báðir í eigendahópi ÍAV áður en að Arion tók fyrirtækið yfir. Þeir munu báðir halda störfum sínum eftir yfirtöku Marti.

Marti gerði Arion síðan nýtt tilboð í upphafi árs 2010 sem bankanum þótti álitlegra. Viðskiptablaðið greindi síðan frá því á fimmtudag að Marti hefði tekið að fullu yfir rekstur verktakahluta ÍAV en að fasteignarþróunarverkefni sem fyrirtækið vann á eigin reikning rynni til Arion banka. Móðurfélag ÍAV og dótturfélög þess skulduðu Kaupþingi, fyrirrennara Arion banka, um 26 milljarða króna haustið 2008. Sú tala hefur hækkað verulega síðan því að lítið sem ekkert var greitt af lánunum eftir bankahrun. Því er ljóst að Arion banki hefur þurft að afskrifa milljarða króna vegna ÍAV.