Félag atvinnurekenda hefur fyrir hönd Iceland Express óskað eftir gögnum frá Ríkiskaupum svo meta megi það fjárhagstjón sem félagið hefur orðið fyrir frá því útboði á flugsætum opinberra starfsmanna til og frá landinu lauk í mars í fyrra. Í framhaldinu verður óskað eftir viðræðum um hvernig  tjónið verði bætt.

„Við þurfum að fá upplýsingar um umfang viðskiptanna til að geta lagt fram raunhæfa kröfu. Við ætlum að reyna að ná samkomulagi um bætur. Vonandi tekst það. Ef það tekst ekki þá verður ein leið eftir, dómsstólaleiðin,“ segir  Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, í samtali við vb.is.

Tilboð Iceland Express betra en Icelandair

Tilboð Iceland Express í útboði um flugsæti opinberra starfsmanna til og frá Íslandi var allt að 200% hagstæðara en tilboð Icelandair sem lagt var til grundvallar í útboði í mars í fyrra. Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaup hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup þegar tilboði Icelandair í útboðinu var tekið. Kærunefndin telur að tilboð Iceland Express hafi verið mun hagstæðara en tilboð Icelandair.

Fram kemur í tilkynningu frá Iceland Express þar sem farið er yfir niðurstöðu Kærunefndarinnar, að tilboð Iceland Express hafi hlotið 92,96 stig af 100 mögulegum í útboðinu en Icelandair 53,57 stig. Ríkiskaup tók báðum tilboðunum og gerði rammasamning við bæði félögin, en ríkisstofnanir hafa átt sáralítil viðskipti á grundvelli samningsins við Iceland Express. Þá ákvað ríkið þrátt fyrir mótmæli Iceland Express að setja ekki skorður á punktasöfnun ríkisstarfsmanna með miðakaupum hjá Icelandair, sem skekkir mjög samkeppnisstöðuna. Ríkisstarfsmenn hafa þannig persónulegan ávinning af þessum óhagstæða samningi Ríkiskaupa við Icelandair. Um töluverðar fjárhæðir er að ræða þar sem rammasamningurinn er metinn á 800 til 1.000 milljónir króna á ári.

Kærunefndin fellst ekki á að ógilda beri eða endurtaka útboðið þar sem að lög heimili henni það ekki, en kemst að þeirri niðurstöðu að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart Iceland Express og það skuli greiða Iceland Express málskostnað.