Íslenskt efnahagslíf er í kröftugri uppsveiflu sem knúin er áfram af stórauknum kaupmætti heimilanna og aukinni eftirspurn sem beinist að heimamarkaðsgreinum samkvæmt könnuninni. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu eru svipaðar og í upphafi efnahagsuppsveiflunnar 2004 og mat á aðstæðum eftir 6 mánuði er hærra en það var á þensluárunum 2004-2007. Er þetta meðal niðurstaðna könnunar sem Gallup gerði meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins fyrir Samtök atvinnulífsins.

Þótt enn sé nægt framboð af starfsfólki fjölgar þeim fyrirtækjum hratt sem finna fyrir vinnuaflsskorti. Búast má við 1% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum, þ.e. rúmlega eitt þúsund störfum. Skortur á starfsfólki og áformuð fjölgun starfsmanna er mest í heimamarkaðsgreinum en minnst í útflutningsgreinum. Stjórnendur búast við mikilli aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstunni en að verðhækkanir á vörum þeirra og þjónustu verði hóflegar. Jafnframt virðast þeir bjartsýnir um þróunina á erlendum mörkuðum.

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar muninn á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er nú svipuð og um áramótin 2003 og 2004 þegar síðasta efnahagsuppsveifla fyrir hrun var að hefjast. Meirihluti stjórnenda, 53%, telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 8% að þær séu slæmar. Í öllum atvinnugreinum telja mun fleiri stjórnendur aðstæður vera góðar en slæmar og er matið jákvæðast í fjármálastarfsemi.

Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri en að þær verði verri eftir sex mánuði. Tæplega 40% telja aðstæður verða betri en 11% verri.

Stöðugt fjölgar fyrirtækjum sem telja skort ríkja á starfsfólki. Nú telur rúmur fjórðungur stjórnenda skort vera á starfsfólki og hefur fjöldi þeirra sem svo telja tvöfaldast á síðustu tveimur árum. Skortur á starfsfólki er langmestur í byggingarstarfsemi, þar sem 64% stjórnenda telja skort ríkjandi, og þar á eftir í flutningum og ferðaþjónustu, þar sem 40% stjórnenda telja skort vera á starfsfólki. Minnstur skortur á starfsfólki er í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi þar sem um 15% stjórnenda telur svo vera.