*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 2. október 2019 13:34

Stjórnendur ívið bjartsýnni

Mat stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna heldur minnkandi umsvif í atvinnulífinu.

Ritstjórn
Stjórnendur fjármálafyrirtækja og fyrirtækja í byggingariðnaði sjá fram á mesta fækkun starfsmanna næstu sex mánuði.
Haraldur Guðjónsson

Mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu batnar nokkuð frá fyrri hluta ársins og væntingar eru um að staðan versni ekki mikið á næstu sex mánuðum. Frá þessu er greint á vef Samtaka atvinnulífsins í frétt um niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins.

Samkvæmt könnuninni gera stjórnendur þó ráð fyrir heldur minnkandi umsvif í atvinnulífinu á næstunni. Skortur á starfsfólki sé lítill, eins og verið hafi allt árið, og útlit fyrir áframhaldandi fækkun starfa næsta hálfa árið. Fjárfestingar komi til með að dragast saman milli ára, einkum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

„25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 17% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 22% við fækkun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 0,5% á næstu sex mánuðum en fyrir þremur mánuðum gáfu niðurstöður til kynna áform um 0,4% fækkun. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 700 á næstu sex mánuðum. Fjölgunin er  200 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin 900 hjá þeim sem áforma fækkun.

Stjórnendur fjármálafyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en þar á eftir koma stjórnendur í byggingarstarfsemi og verslun. Fækkun starfa virðist framundan í flestum atvinnugreinum nema ýmissi sérhæfðri þjónustu,“ segir í frétt á vef Samtakanna.

„Stjórnendur hafa fremur litlar væntingar um að aðstæður verði betri eftir sex mánuði. 31% stjórnenda telur að aðstæður versni en 20% að þær batni. Matið er svipað í öllum atvinnugreinum.

Hvað verðbólgu varðar eru stjórnendur bjartsýnir á að hún verði við markmið Seðlabankans, 2,5%, næstu 12 mánuði og verði í kringum 3% eftir tvö ár.