Stjórnendur fyrirtækja búast ekki við að lög um 40% lágmarkshlutfall hvors kyns í stjórnum muni hafa áhrif á stjórnarstörf, rekstrarafkomu, ímynd eða kynjahlutfall æðstu stjórnenda. Þetta sýna niðurstöður könnunar KPMG sem fjallar um starfshætti og starfsumhverfi stjórna. Leitað var til 920 stjórnarmanna og tóku 396 þátt.

Um 80% stjórnenda búast við ýmist engum eða jákvæðum áhrifum og örfáir telja að áhrifin verði neikvæð. Í könnuninni var einnig skoðaður bakgrunnur og eiginleikar hins dæmigerða íslenska stjórnarmanns. Niðurstaðan sýnir að sá er 41-50 ára karlmaður sem er framkvæmdastjóri eða forstjóri í aðalstarfi. Oftar en ekki eru stjórnarmenn viðskipta- eða hagfræðimenntaðir, hafa jákvæða afstöðu til löggjafar um kynjahlutfall í stjórnum og fá greiddar 50.000-100.000 kr. á mánuði fyrir stjórnarsetuna.