*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 29. október 2020 12:45

Stjórnendur kaupa fyrir 350 milljónir

Þrír stjórnendur Marel keyptu um milljón hluti í félaginu í gegnum kaupréttarsamning. Gætu hagnast verulega miðað við markaðsverð.

Alexander Giess
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, keypti 278 þúsund hluti í Marel. Hann á enn fremur 17,9% hlut í stærsta hluthafa Marel, Eyri Invest.
Haraldur Guðjónsson

Þrír stjórnendur Marel, þar á meðal forstjórinn, hafa keypt rúmlega milljón hluti í félaginu fyrir ríflega 2,1 milljón evra, andvirði 353 milljóna króna. Ef fyrrnefndir stjórnendur selja hlutabréfin á markaðsverði bréfanna í kauphöll Amsterdam myndu þeir hagnast um alls 405 milljónir króna þar sem markaðsverð bréfanna er um 758 milljónir. Þetta er meðal þess sem hægt er að lesa úr tilkynningu Marel til Kauphallarinnar sem barst 27. október síðastliðinn. Alls seldi Marel 1,4 milljónir hluta.

Sjá einnig: Innleysa 626 milljóna hagnað hjá Marel

Um er að ræða innlausn á kaupréttarsamningum og var meðalgengi bréfanna rúmlega tvær evrur. Gengi bréfa Marel í kauphöll Amsterdam er um 4,4 evrur þegar þetta er skrifað. Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, keypti mest eða tæplega 530 þúsund hluti. Meðalgengi þeirra bréfa var rúmlega 1,8 evra á hvert bréf en heildarkaupin námu 159 milljónum króna, miðað við núverandi gengi.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, keypti 278 þúsund hluti. Meðalgengi bréfanna var rúmlega 2,3 evrur en heildarkaupin námu 108 milljónum króna. Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga, keypti 237 þúsund hluti fyrir alls 85 milljónir króna.

Eiga enn kauprétt að fimm milljónum hluta

Í kjölfar viðskiptanna eiga téðir stjórnendur tæplega 1,3 milljónir hluta. Á núverandi markaðsgengi Marel, í kauphöll Nasdaq á Íslandi, eru þeir hlutir virði 916 milljónir króna. Linda Jónsdóttir er skráð fyrir mest eða um 710 þúsund hluti sem eru virði um 504 milljónir króna. 

Árni Oddur er skráður fyrir um 343 þúsund hlutum. Auk þess á hann 17,9% hlut í Eyri Invest hf., stærsta hluthafa Marel, sem á um fjórðungshlut í Marel.

Eftir viðskiptin eiga stjórnendurnir kauprétt að alls fimm milljónum hluta. Miðað við núverandi markaðsgengi Marel í kauphöll Nasdaq á Íslandi eru þeir hlutir virði 3,5 milljarða króna. Kaupverð fyrir hvern hlut er óvitað.

Árni Oddur á kauprétt að tæplega tveimur milljónum hluta. Árni Sigurðsson á kauprétt að 1,6 milljónum hluta og Linda á kauprétt að tæplega 1,4 milljónum hluta.

Viðskiptin eru til að mæta skilyrðum um framkvæmd kaupréttarsamninga, vegna kauprétta sem veittir voru á árunum 2014-2017, í samræmi við starfskjarastefnu félagsins.