Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, hefur aukið hlut sinn í bankanum og keypt hluti fyrir 930 milljónir króna, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Þar segir að að Bjarni hafi keypt 50 milljónir hluta á genginu 18,6 og nemur heildareignarhluturinn nú 131.610.329 hlutum.

?Bréfin eru keypt í nafni fruminnherja en verða færð við fyrsta tækifæri yfir á hlutafélag sem fruminnherji mun stofna á næstu dögum," segir í athugasemd Kauphallarinnar um kaupin.

Stjórn Íslandsbanka ákvað, eftir lokun markaða á þriðjudaginn, að nýta heimild sína til sölu á 1.000 milljónum nýrra hluta. Verð bréfanna var 18,6 krónur á hlut eða samtals 18,6 milljarðar króna.

Alls óskuðu 80 fagfjárfestar eftir hlutafé að fjárhæð 29 milljarðar króna og var umframeftirspurn því 56%. Gjalddagi kaupanna er 16. janúar, að því segir í tilkynningu frá bankanum til Kauphallarinnar.

?Þessi aukning hlutafjár gefur bankanum kost á meiri vexti en við höfðum áður áætlað. Jafnframt rennir hið aukna eigið fé sterkum fjárhagslegum stoðum undir reksturinn," sagði Bjarni í tilkynningunni.

Róbert Melax, stjórnarmaður í Íslandsbanka, hefur einnig nýtt kauprétt og keypti 48 milljónir hluta á sama gengi, ásamt örðurm stjórnarmanni Karli Emil Wernerssyni, sem keypti 162.400.000 hluti á genginu 18,6 og nemur heildareignarhutur hans nú 3.226.279.277. Kaupvirði hlutarins nemur rúmum þremur milljörðum króna.

Heildarkaup stjórnendanna þriggja nema tæpum fimm milljörðum króna