Félag í eigu stjórnenda Tölvumiðlunar hefur keypt 95,71% hlutafjár í fyrirtækinu, segir í fréttatilkynningu.

Kaupendur eru Brynjar Gunnlaugsson, Daði Friðriksson, Gissur Ísleifsson og Styrmir Bjarnason, sem allir hafa starfað hjá félaginu um árabil, segir í tilkynningunni.

Seljandi er Landsbanki Luxembourg SA.

Hjá Tölvumiðlun starfa 22 starfsmenn að hugbúnaðarverkefnum og þjónustu hugbúnaðar, en félagið er eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1985.

Helstu viðfangsefni Tölvumiðlunar eru á sviði launavinnslu og mannauðsmála en þekktustu afurðir félagsins eru H-Laun launakerfið og HLaun3 sem er stöðluð heildarlausn í mannauðsmálum.

Tölvumiðlun annast einnig sérsmíði hugbúnaðar fyrir fyrirtæki og stofnanir, auk þess að annast rekstur tölvukerfa, neta og vinnustöðva fyrir ýmsa aðila með rekstrarþjónustu. Flest sveitarfélög landsins nota SFS Fjárhagskerfi Tölvumiðlunar sem sérsniðið er að þörfum þeirra.

Félagið er sölu- og þjónustuaðili á myndgreiningarkerfum frá Eastman Kodak sem notað er á röntgendeildum stærstu sjúkrahúsa landsins.

Ráðgjafi kaupenda var KPMG Endurskoðun.