Í forgagnsréttaútboði Regins, sem lauk í gær, keyptu stjórnendur félagsins tæplega 1,8 milljónir hluta í félaginu fyrir alls 26,2 milljónir króna. Þar af keypti félagið Sigla ehf. nær allan hlutann eða 1,7 milljónir hluta. Frá þessu er greint í tilkynningu félagsins.

Tómas Kristjánsson, stjórnarformaður Regins, er fjárhagslega tengdur Siglu ehf. en eftir viðskiptin á félagið um 61,7 milljónir hluta í félaginu. Ef miðað er við útboðsgengi félagsins er virði hlutanna alls 926 milljónir króna.

Sjá einnig: Útboð Reitis samþykkt og Regins lokið

Félagið B38 ehf. keypti tæplega 45 þúsund hluta fyrir 670 þúsund krónur. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, er fjárhagslega tengdur félaginu en eftir viðskiptin á félagið ríflega 1,5 milljónir hluta og er virði þeirra 23,5 milljónir króna.

Bryndís Hrafnkelsdóttir, stjórnarmaður Regins,  keypti 509 hluta sem kostuðu tæplega 8.000 krónur. Eftir viðskiptin á hún ríflega 18 þúsund hluta í Regin, andvirði alls 278 þúsund króna Albert Þór Jónsson, stjórnarmaður Regins, keypti tæplega 3.400 hluti fyrir 50 þúsund krónur. Eftir viðskiptin á hann ríflega 150 þúsund hluta andvirði 2,3 milljóna króna.

Í útboðinu voru boðnir 40 milljón nýir hlutir til kaups á genginu 15 krónur fyrir hvern hlut. Rúmlega fjórföld eftirspurn var af nýjum hlutum eða alls 171 milljón hlutir. 600 milljónir króna söfnuðust.