*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 3. apríl 2018 16:07

Stjórnendur keyptu í Origo

Finnur, Ágúst, Dröfn, Emil, Gunnar Már, Hákon, Tomas og Ingimar nýttu sér öll kauprétt laugardaginn fyrir páska.

Ritstjórn
Finnur Oddsson er forstjóri Origo.
Haraldur Guðjónsson

Nokkrir helstu stjórnendur Origo hf., áður Nýherja, nýttu sér kauprétt í félaginu fyrir mánaðamót núna um páskahelgina. Voru viðskiptin skráð samkvæmt kauphöllinni laugardaginn 31. mars síðastliðinn, sem er daginn fyrir páskadag. Í heildina voru leistir inn kaupréttir á 6.610.123 hlutum.

Finnur Oddsson forstjóri keypti 35.098 hluti á 17,095 krónur hvern hlut. Fékk hann bréfin á 600 þúsund krónur, en þar sem bréfin eru nú á 23,85 krónur hvert bréf, er verðmæti þeirra því um 840 þúsund krónur. Á Finnur nú 1.500.762 hluti, sem eru því að verðmæti tæplega 36 milljóna króna.

Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri dótturfélagsins Tempo gerði sömu viðskipti.Í heildina á Ágúst nú 1.050.855 hluti, sem eru því að verðmæti 25 milljóna króna miðað við núverandi gengi. Til viðbótar á hann svo kauprétt að rúmum 35 þúsund bréfum til viðbótar.

Dröfn Guðmundsdóttir mannauðsstjóri keypti jafnmörg bréf á sama verði og þeir Finnur og Ágúst, og á hún kauprétt að jafnmörgum bréfum til viðbótar líkt og þeir tveir. Hins vegar á hún nú 105.631 hluta, sem eru nú að andvirði um 2,5 milljóna króna.

Emil Einarsson framkvæmdastjóri Notendalausna hjá Origo gerði sömu viðskipti og hin, en eftir þau á hann 208.147 hluti sem eru að andvirði tæplega 5 milljóna.

Gunnar Már Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs gerði sömu viðskipti og á hann nú 150.762 hluti, sem eru að andvirði tæplega 3,6 milljóna.

Hákon Sigurhansson framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna er í sama hópi og voru viðskipti hans jafnstór, en eftir þau á hann 70.196 hluti. Heildarverðmæti þeirra eru því nú tæplega 1,7 milljóna króna. Eignarhlutur Tomas Wikström framkvæmdastjóra dótturfélags er jafnstór nú eftir sömu viðskipti.

Loks á Ingimar G. Bjarnason framkvæmdastjóri eftir sömu viðskipti 364.511 hluti, sem eru að andvirði 8,7 milljónir króna.

Á vef Origo má sjá tilkynningu um kaupin, en þau eru samkvæmt kaupréttaráætlun sem tilkynnt var um 1. apríl fyrir tveimur árum. Samkvæmt henni eru ný bréf gefin út fyrir kaupréttinum sem nær til allra fastra starfsmanna samstæðunnar. Í heildina gerðu 94 starfsmenn kaupréttarsamning til viðbótar 31. mars síðastliðinn og keyptu þeir 2.278.709 hlutir á genginu 24,74 hlutir, og ávinnast kaupréttur hvers kaupréttarhafa á einu ári.