*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 24. ágúst 2020 10:12

Nýta kauprétti og selja í Kviku

Stjórnendur Kviku nýttu áskriftarréttindi og keyptu fyrir 276 milljónir en seldu líka fyrir 295 milljónir, 55% munur er á kaupverði og markaðsgengi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sjö stjórnendur Kviku banka hafa nýtt áskriftarréttindi sín og keypt í bankanum, sú tilkynning barst í gærkvöldi. Tveimur klukkustundum síðar barst tilkynning um að sömu sjö aðilar höfðu selt í bankanum, hugsanlega til að fjármagna kaupin. Átta stjórnendur innleystu kauprétti í síðustu viku.

Umræddir stjórnendur eru eftirfarandi:

  • Marinó Örn Tryggvason – Forstjóri
  • Ármann Þorvaldsson – Aðstoðarforstjóri
  • Ragnar Páll Dyer – Framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs
  • Bjarni Eyvinds Þrastarson – Framkvæmdastjóri markaðsviðskipta
  • Magnús Ingi Einarsson – Framkvæmdastjóri bankasviðs
  • Halldór Karl Högnason – Forstöðumaður fjárstýringar
  • Lilja Rut Jensen – Yfirlögfræðingur

Sjá einnig: Stjórnendur Kviku innleysa kauprétti

Alls voru seldir 29,5 milljónir hluta sem allir voru á genginu 10 og nam heildarsalan 295 milljónum króna. Hlutabréfagengi Kviku við opnun markaða í dag var 10,3 krónur. Alls var keypt fyrir 41,5 milljónir hluta sem voru allir á genginu 6,64 krónur og námu heildarkaup 275,6 milljónum króna. Miðað við gengi bréfanna í morgun eru keyptir hlutir virði 427,5 milljónir króna, 152 milljónum meira en kaupverðið eða 55% hærra.

Mest seldu Ármann og Marinó eða ríflega 5,3 milljónir hluta hvor, fyrir 53 milljónir króna. Eftir söluna eiga þeir báðir árskriftarréttindi að ríflega 14,7 milljónum hluta. Aðilar sem teljast fjárhagslega tengdir Ármanni eiga um tvo milljón hluti.

Ármann og Marinó voru einnig þeir sem keyptu mest eða ríflega 7,3 milljónir hluta, fyrir um 49 milljónir króna hvor. Miðað við hlutabréfagengi dagsins í dag eru hlutirnir virði 75,5 milljónir króna.

Ragnar Páll, Bjarni Eyvinds og Magnús Ingi keyptu allir fyrir 6,5 milljónir hluta hvor, eða fyrir 43,1 milljón króna, í gegnum félög í þeirra eigu. Miðað við gengi bréfanna í dag eru hlutirnir virði 67 milljónir króna. Enn fremur seldu þeir allir 4,5 milljónir hluta hvor, fyrir 45 milljónir króna eða rétt ríflega það sem nemur kaupverðinu.

Fjárhagslega tengdir aðilar Magnúsar eiga ríflega 12,1 milljón hlut og tengdir aðilar Bjarna tæplega 12 milljón hluti.

Halldór Karl keypti fjórar milljónir hluta fyrir ríflega 26 milljónir og seldi 3 milljón hluti og fékk 30 milljónir fyrir. Lilja Rut keypti ríflega 3,3 milljónir hluta en seldi fyrir um 2,3 milljónir hluta.