*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 21. ágúst 2020 17:23

Stjórnendur Kviku innleysa kauprétti

Átta stjórnendur Kviku banka, og fjárhagslega tengdir aðilar þeirra, eiga áskriftarréttindi að samtals 131 milljón hlutabréfa.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Átta stjórnendur Kviku banka nýttu hver um sig kauprétti að fjárhæð tæplega 600 þúsund krónur fyrr í dag. Allir keyptu þeir 93.225 hluti á kaupgenginu 6,436 en lokagengi Kviku í Kauphöllinni í dag var 10,3 krónur. Kaupverðið var því um 360 þúsund krónur undir markaðsvirði bréfanna í dag. Umræddir stjórnendur eru eftirfarandi:

  • Ármann Þorvaldsson - Aðstoðarforstjóri
  • Baldur Stefánsson - Framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar útgefenda
  • Bjarni Eyvinds Þrastarson - Framkvæmdastjóri markaðsviðskipta
  • Halldór Karl Högnason - Forstöðumaður fjárstýringar
  • Hannes Frímann Hrólfsson - Framkvæmdastjóri Júpíters rekstrarfélags hf.
  • Lilja Rut Jensen - Yfirlögfræðingur
  • Magnús Ingi Einarsson - Framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku
  • Marinó Örn Tryggvason - Forstjóri

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að Marinó Örn Tryggvason og Ármann Þorvaldsson eiga báðir áskriftarréttindi fyrir 22 milljónir hluta. Aðilar sem eru fjárhagslega tengdir Ármanni eiga meira en tvær milljónir hluta í félaginu sem nema samtals 21,4 milljónum miðað við gengi dagsins. 

Bjarni Eyvinds Þrastarson og Magnús Ingi Einarsson eiga áskriftarrétindi fyrir 19,5 milljónir hluti. Fjárhagslega tengdir aðilar Bjarna eiga 9,98 milljónir hluti sem jafngilda 102,8 milljónum króna. Fjárhagslega tengdir aðilar Magnúsar eiga 10,17 milljónir hluta sem nema samtals 104,7 milljónum króna að markaðsvirði. 

Fjárhagslega tengdir aðilar Baldurs Stefánssonar eiga í dag sléttar tvær milljónir hluta, sem eru að verðmæti 20,6 milljóna króna auk þess sem þeir eiga áskriftarrétindi að 20,6 milljónum hluta. 

Hannes Frímann Hrólfsson og Lilja Rut Jensen eiga áskriftarréttindi að 13 milljónum og 10 milljónum hluta, sitt í hvoru lagi. Fjárhagslega tengdir aðilar Halldór Karls Högnasonar eiga einnig áskriftarréttindi að 12 milljónum hluta. 

Stjórnendurnir átta, og fjárhagslega tengdir aðilar þeirra, eiga því áskriftarréttindi að samtals 131 milljón hlutabréfa.