Einstaklingar í stjórnunarstöðum á síðari hluta starfsferilsins geta búist við því að lifa um áratug lengur en þeir sem lægst settir eru í skipuritinu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á starfsferli, lífslíkum og lífshamingju Spánverja 50 ára og eldri. Lífslíkur Spánverja eru meðal þeirra mestu í Evrópu en líkt og víða annars staðar eru lífslíkur kvenna þar nokkru meiri en karla.

Fjöldi hamingjuríkra ára í lífi karla eykst eftir því sem þeir eru ofar í skipuritinu en sú fylgni mælist ekki meðal kvenna. Orsakasamhengi þessa var ekki skoðað í téðri rannsókn, en höfundar velta því þó upp hvort ríkari ábyrgð kvenna á heimili, börnum og barnabörnum samhliða starfsferli hafi áhrif.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar geta lágt settar konur búist við skemmra og óhamingjusamara lífi en aðrir hópar á vinnumarkaði.

Höfundar rannsóknarinnar benda á að mikilvægt sé að horfa til ólíkrar stöðu hópa á vinnumarkaði þegar eftirlaunaaldur er endurskoðaður. Hærri eftirlaunaaldur geti haft neikvæðar afleiðingar á velferð og heilsu viðkvæmra hópa. Í því samhengi er bent á að mikilvægt sé að störfum sem fylgja meiri lífslíkur og aukin hamingja fjölgi samhliða hækkun eftirlaunaaldurs.