Kostnaður Marels við kaup á eigin hlutabréfum til að uppfylla kaupréttarsamninga við lykilstjórnendur fyrirtækisins nemur 281,4 milljónum króna. Starfsmennirnir fá ekki að nýta réttinn til að kaupa hlutabréfin fyrr en í maí á næsta ári.

Marel tilkynnti í dag að það hafi keypt sjö milljónir eigin hluta á genginu 126,5 krónur á hlut vegna kaupréttarsamninganna. Samningarnir voru gerðir í maí í fyrra við fjölda lykilstjórnenda, þar á meðal þá Theo Hoen, forstjóra Marel, Sigstein Grétarsson, forstjóra Marel á Íslandi, og fjármálastjórann Erik Kamen. Þremenningarnir eiga samanlagt kauprétt upp á rétt rúma eina milljón hluti en hver þeirra hefur rétt til að kaupa 350 þúsund hluti. Aðrir lykilstjórnendur Marel eiga rétt upp á rest, sex milljón hluti af hlutabréfasafninu sem tilkynnt var um í dag.

Ekki fékkst uppgefið hjá Marel hversu margir njóta kaupréttarins að öðru leyti en því að um talsvert stóran hóp fólks er að ræða.

Samningar virkir í þrjú ár

Samkvæmt kaupréttarsamningunum fær hver lykilstjórnandi að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu á lokagengi þess dags sem kaupréttarsamningarnir miðuðu við, sem var 10. maí í fyrra. Verðið var þá 86,3 krónur á hlut.

Gengi hlutabréfanna hefur hækkað um tæp 47% síðan samningarnir voru innsiglaðir og heildarverðmæti hlutanna sjö milljóna farið úr 604,1 milljón króna í 885,5 milljónir króna.

Mismunurinn er 281,4 milljónir króna. Fjárútlát Marel vegna hlutafjárkaupanna gætu orðið talsvert lægri ef starfsmenn fyrirtækisins nýta sér kaupréttinn síðar en í maí á næsta ári. Samkvæmt samningnum frá í fyrra hækkar kaupréttargengið um fjögur prósent árlega næstu þrjú árin. Miðað við það gæti gengi hlutabréfanna orðið 97 krónur á hlut í kaupréttarsamningunum þegar þeir renna út árið 2015. Miðað við það og að því gefnu að enginn starfsmanna Marel nýti sér kaupréttinn í maí á næsta ári gæti heildarverðmæti hlutabréfanna allra orðið rétt tæpar 680 milljónir króna. Kostnaður fyrirtækisins vegna hlutabréfakaupanna nema því 206 milljónum króna.

Hlutabréfin sem tilkynnt var um í dag voru keypt á almennum markaði og nam verðmætið 91,5% af heildarveltu í Kauphöllinni.

Viðskiptin í dag eru aðeins hluti af kaupréttarsamningum lykilstjórnenda Marels sem samþykktir voru á stjórnarfundi fyrirtækisins í mars í fyrra. Markmið þeirra er að tvinna saman hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma.

Fram kemur í tilkynningu um kaupréttina í fyrra að engir söluréttir eru til staðar eða fjármögnun tengd samningunum. Skilyrði fyrir nýtingu þeirra eru að viðkomandi sé í starfi hjá  Marel á nýtingardegi.

Kaupréttarsamningarnir hljóða í heilda upp á kaup á 18,2 milljónum hluta og eru nýtanlegri í fimm ár. Helmingurinn, réttur til að kaupa 9,1 milljón hlutabréfa til viðbótar, verður nýtanlegur í maí á næsta ári.