Stjórnendur Mosaic Fashions hafa gefið skýrt upp markmið sín fyrir þetta ár. Áætlað er að rekstrartekjur verði 419 m.punda sem er 18% vöxtur milli ára. Áætluð EBITDA ársins er 59 m.punda sem er 13% af sölu. Þeir segja að annar ársfjórðungur hafi farið vel af stað og árangur það sem af er ári bendi ekki til annars en að áætlanir standist. Þeir benda þó á í þessu samhengi að hlutir geta verið fljótir að breytast á breska smásölumarkaðnum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Mosaic Fashions birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í gær. Á breska smásölumarkaðnum er hefð fyrir því að fjárhagsárið sé frá byrjun febrúar til loka janúar og því er fyrsti ársfjórðungur hjá félaginu mánuðirnir febrúar til apríl.Yfirtaka á Karen Millen átti sér stað í júní í fyrra og yfirtaka á Mosaic Fashions Ltd. í maí á þessu ári.

Til að auðvelda samanburð á milli ára birti félagið samanlagðan reikning (pro forma) eins og félögin hefðu verið rekin saman allt árið í fyrra og á þessu ári. Góður árangur náðist á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en erfiðari markaðsaðstæður hafa verið á breska smásölumarkaðnum í ár. Í því samhengi eru stjórnendur Mosaic ánægðir með 13% söluaukningu frá sama tíma og í fyrra. Mjög góður tekjuvöxtur var í 3 vörumerkjunum af fjórum, Coast (38%). Whistles (27%) og Oasis (10%) en samdráttur var í sölu Karen Millen (-1%). EBITDA sem hlutfall af sölu var 13,6% á ársfjórðungnum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.