Nói Síríus segir óhjákvæmlegt að fyrirtækið hækki vöruverð hjá sér. Vöruverð hækkar á bilinu 2,5-9% frá 22. janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Nóa & Síríus. VB.is hefur ítrekað reynt að ná tali af Finni Geirssyni, forstjóra fyrirtækisins, undanfarin sólarhring en án árangurs. Ástæða hækkana á listaverði er rakin til hækkunar á framleiðslukostnaði og einkum hráefnisverði.

„Það er ekki auðveld ákvörðun að hækka verð í því samkeppnisumhverfi sem Nói Síríus starfar og það gerir enginn nema að ríkar ástæður búi að baki. Bakgrunnur þessara hækkana er fyrst og fremst nær stöðugar hækkanir á helstu hráefnum til súkkulaðigerðar á heimsvísu og leitt hefur til hækkunar á súkkulaði víða um heim. Sem dæmi má nefna að verð á einu helsta hráefni til framleiðslunnar hefur hækkað um helming á einu ári,“ segir í yfirlýsingu frá Nóa og Síríus.

Í yfirlýsingunni segir að fyrirtækið hafi gert sitt besta til að halda aftur af hækkunum þrátt fyrir kostnaðarhækkanir og m.a. farið í gegnum viðamiklar aðgerðir til að straumlínulaga reksturinn undanfarin ár. „En það eru takmörk fyrir því hverju hægt er að ná fram með slíkum aðgerðum og ekki eru aðrar leiðir færar nú en að hækka verð ef ekki á að fara illa. Hjá fyrirtækinu starfa um 150 manns og án hækkana væri vegið að rekstrargrundvelli þess og um leið starfsgrundvelli starfsfólksins. Ef ekki væru þessar sérstöku aðstæður hefði Nói Síríus auðvitað gert sitt ítrasta til að láta umsamdar launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum ekki hafa áhrif á verðlagningu fyrirtækisins,“ segir í yfirlýsingunni.