Stjórnendur fyrirtækja sem sátu í pallborði á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í morgun voru allir sammála um að ljúka þyrfti aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði síðustu ríkisstjórn ekki hafa verið nógu trúverðuga í þessum málum þar sem annar flokkurinn vildi ganga inn í ESB en hinn ekki. Viðræðurnar hafi ekki gengið nógu hratt og ekki hafi verið byrjað að opna erfiðustu kaflana. Bjarni ítrekaði á fundinum að ríkisstjórnin væri ekki búin að slíta viðræðum þó ákvörðun hefði verið tekin um að halda þeim ekki áfram.

Á fundinum voru birt viðtöl við Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur, forstjóra Actavis, Sigurð Viðarsson, forstjóra TM, Magnús Bjarnason, forstjóra Icelandic, Úlfar Steindórsson, forstjóra Toyota, Margréti Guðmundsdóttur, forstjóra Icepharma, Eyjólf Árna Rafnsson, forstjóra Mannvits og Grím Sæmundssen, forstjóra Blue Lagoon. Allir þessi stjórnendur voru sammála um að halda ætti áfram viðræðum við Evrópusambandið og ljúka viðræðum.

Úlfar sagði það morgunljóst að klára þyrfti viðræðurnar því ef ekki þá myndi þetta halda áfram að vera eitt af þrætueplunum næstu tuttugu árin. Sjálfur sagðist honum ekkert lítast á þennan félagsskap og átti þá við Evrópusambandið. Hinsvegar væri eðlilegt að bera málið undir þjóðina. Magnús sagði að ljúka þyrfti viðræðum en að taka ætti allan þann tíma sem þyrfti í það, ekkert lægi á. Óháð því hvaða skoðun fólk hafi á Evrópusambandinu þá skipti það þjóðina miklu máli.