Sveinn Sölvason, fjármálastjóri stoðtækjaframleiðandans Össurar, og Margrét Lára Friðriksdóttir, yfirmaður á mannauðssviði fyrirtækisins, fengu um miðjan desember síðastliðinn rétt til að kaupa 100 þúsund hluti í fyrirtækinu. Gjaldeyrishöft og fleiri þættir komu í veg fyrir að þau gætu innleyst kaupréttina og því fengu þau sáttagreiðslu hjá Össuri.

Fram kemur í tilkynningu að greiðslan jafngildi hagnaðinum sem þau hefðu getað innleyst af kaupum og sölu á 100 þúsund hlutum. Þau gátu samkvæmt því keypt hlutina á 5,32 danskar krónur á hlut og selt aftur á 11,3 danskar krónur eða fyrir samtals um 23 milljónir króna. Greiða átti út í Bandaríkjadölum og virðist þar hnífurinn hafa staðið að hluta í kúnni. Þessu samkvæmt fær hvort um sig 11,5 milljónir króna.